Ferill 240. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 240 . mál.


Ed.

445. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 13 10. apríl 1979, um stjórn efnahagsmála o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1.gr.


    39. gr. laganna orðist þannig:
    Það eru skilyrði verðtryggingar samkvæmt lögum þessum:
1.     að verðtryggðir sparifjárreikningar, kröfur og skuldbindingar séu ætíð skráð á nafn,
2.     að við endurlán verðtryggðra peningalána standist verðtryggingarákvæði í aðalatriðum á í báðum samningum,
3.     að verðtrygging sparifjár og lánsfjár sé eigi til skemmri tíma en tveggja ára hvað varðar aðrar skuldbindingar en sparifjárinnstæður sem því aðeins mega njóta verðtryggingar að bundnar séu í sex mánuði eða lengur,
4.     að grundvöllur verðtryggingar sé sem hér segir:
. a.     miðað sé við opinbera skráða vísitölu eða vísitölur eins og þær eru reiknaðar á hverjum tíma,
. b.     miðað sé við gengi erlends gjaldeyris þar sem slíkt er heimilt samkvæmt lögum eða reglugerð.
    Seðlabanki Íslands skal birta vísitölur, sem heimilt er að miða verðtryggingu sparifjár og lánsfjár við, ásamt vaxtakjörum.
    Seðlabanka Íslands er að fengnu samþykki viðskiptaráðherra heimilt að ákveða lengri lágmarkstíma verðtryggðra sparireikninga og útlána, sbr. 3. tölul., og að ákveða að vextir verðtryggðra útlána skuli vera óbreytanlegir á lánstímanum. Seðlabankinn getur einnig með samþykki ráðherra veitt undanþágu til skemmri lágmarkstíma þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.
    Ákvæði þessarar greinar gilda eftir því sem við á um endurlán erlends lánsfjár skv. 38. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt til þess að bæta inn í ákvæði laga, sem fjalla um verðtryggingu fjárskuldbindinga, nauðsynlegum heimildum varðandi lágmarkstíma verðtryggðra innlána og útlána og varðandi vexti af verðtryggðum skuldbindingum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er í fyrsta lagi lagt til að efni ákvæða í bráðabirgðalögum nr. 44 frá 20. maí 1988 verði tekin inn í 39. gr. laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., sem skilyrði verðtryggingar. Þá er tekið inn heimildarákvæði til að lengja lágmarkstíma verðtryggðra fjárskuldbindinga sem nú er tvö ár á útlánum en sex mánuðir á sparifjárinnstæðum. Þessari heimild má beita til þess að draga úr mikilvægi verðtryggingar á lánamarkaði eftir því sem úr verðbólgu dregur með því að lengja lágmarkstímann. Heimild er einnig fyrir Seðlabankann til að veita undanþágu frá lágmarkstíma í sérstökum tilvikum.
    Þá er hér í öðru lagi lagt til að heimilt verði að ákveða að vextir verðtryggðra lána skuli vera óbreytanlegir á lánstímanum. Það virðist sanngjarnt að óbreytanlegir vextir gildi á verðtryggðum lánum, enda eyðir verðtryggingin stærstum hluta óvissu í lánssamningum. Eðlilegast virðist að gefa færi á að taka slíka ákvörðun þegar Seðlabankinn metur aðstæður á lánamarkaði vel til þess fallnar.

Um 2. gr.


    Þarfnast ekki skýringar.